Færsluflokkur: Ferðalög

Strandir, Vestfirðir, Landmannalaugar, garðurinn og góða veðrið !!

Nú fer sumarfríið að klárast - byrja að vinna á fimmtudaginn - Skrítið hvað 4 vikur líða hratt! 

Fríið hefur verið æðislegt - fórum vestur á strandir og á vestfirði, öll fimm saman. Veðrið var gott allan tímann, sem skiptir miklu máli. Gistingin "heppnaðist" vel en ég var búin að panta svefnpokagistingu fyrir okkur. Gistiþjónusta Sunnu á Drangsnesi toppar það samt alveg - mjög flott gisting fyrir sanngjarnt verð.

Ég á eftir að fara aftur á vestfirði, það er svo margt að sjá og skoða - engan vegin hægt að gera það í einni ferð.

Við fórum einnig í dagsferð uppí Landmannalaugar. Hjördís og Craig ætluðu þangað á "puttanum"  en við skutluðum þeim bara - alltaf gaman að koma þangað, ganga "hringinn" inní Grænagil - ólýsanleg fegurð.

Sigrun, Ivar, Hjordis and Craig

Ég er heppin að fá svona gott veður þessa viku - garðvinnan er svo miklu skemmtilegri í sól. Skrítið hvað arfinn vex hratt, þegar maður bregður sér af bæ í hálfan mánuð. En mér finnst nú skemmtilegt að liggja á hnjánum í garðinum ( mér finnst samt ósanngjarnt að ég fái ekki kúlurass) Wink

hafið það gott alle sammen Heart


Viðtal við flakkarann minn í Fréttablaðinu í dag!

http://vefblod.visir.is/index.php?s=2851&p=70580

Hún Hjördís dóttir mín er í viðtali við Fréttablaðið í dag og ég er svo stolt af henni. Hún er búin að ferðast um allann heiminn - er svo víðsýn og fróð um menningu; lönd og þjóðir. Þegar hún ferðast þá fræðist hún svo mikið um staðina, en hún talar mjög mörg tungumál svo hún á auðvelt með að tala við innfædda. T.d. útskrifaðist hún með stúdentspróf í sjö tungumálum fyrir utan íslensku - það er ekkert smá tungumálakunnátta.

Það er ekkert lítið sem hún er búin að safna í sarpinn - þetta hefur verið "skóli lífsins", en núna er hún í Háskólanum á Akureyri í samfélags- og hagþróunarfræði. Fyrir utan allt þetta þá er hún góður penni, kann að koma orðum á blað - ég veit ekki hvaðan hún hefur það (ekki frá mér) en ég veit heldur ekki hvaðan hún hefur teikni og málarahæfileikann (alls ekki frá foreldrum sínum).

Hún á sko framtíðina fyrir sér Smile

 


Svaðilför til Akureyrar......

Akureyri 002..... nei kannski ekki alveg rétt - en frúin er mjög bílhrædd og fer helst ekki yfir heiðar á veturna. Þegar ég var að undirbúa mig fyrir ferðina norður var eins og ég væri að fara í svaðilför - við öllu búin. Svo gekk auðvitað allt eins og í sögu og kvíðahnúturinn í maganum vikuna fyrir bröttför var ekki til staðar á leiðinni. Kommon! við erum á fjórhjóladrifnum bíl á góðum dekkjum, alvanur bílstjóri og vegheflar sem halda þjóðvegi 1 opnum. Svo sit ég afturí og prjóna á meðan unglingurinn sér um að hafa músík sem frúnni líkar Smile

En það var gaman að heimsækja Hjördísi og Craig, gott að búa hjá þeim og bara að vera með þeim. Á sunnudagskvöldinu elduðu þau handa okkur mexikanskan mat - þau eru mjög góðir kokkar - pizzan þeirra svíkur sko engann - allt homemade - hrist niður úr erminni.

Mér finnst Akureyri alltaf sjarmerandi - sérstaklega eftir að dóttirin og bretinn fluttu þangað - og er alveg til í aðra "svaðilför"


Icelandair á alla mína samúð!

Flugfélagið er búið að leggja í miklar breytingar sem eru misheppnaðar svo vægt sé til orða tekið. Tek sem dæmi með matinn, nú er ekkert fyrir þá sem borða grænmetisfæði. Takk fyrir - bara kjötætur sem fá að kaupa mat í flugvélinni - hinir koma með nesti. Þetta steikar-dæmi sem var auglýst þvílíkt (einhver steikarsamloka) er svo bara fyrir Ameríkuflugið takk fyrir. Salatið sem líka var auglýst er líka bara fyrir Ameríkuflugið - er kannski kjúklingur í salatinu - ég bara spyr?

Sætin eru hörð og ekki gott að sitja lengi í þeim og þess utan er einhver járnstöng undir miðju sætinu sem maður finnur fyrir. Flugfreyjurnar sögðu mér að það væri kvartað undan sætunum, sérstaklega á löngum flugleiðum. Svo þarf maður að kaupa sér kodda og teppi.

Flugfreyjur eru lengur að afgreiða matinn og þurfa að standa í þessari peningaumsýslu. Þetta eru breytingar sem eru ekki til góðs. Ég hélt einhvernveginn að Icelandair væri svona "fínt"  flugfélag og vildi hafa fína þjónustu - en það er ekki. Að vísu voru flugfreyjurnar bara fínar bæði til og frá Frankfurt og enginn hroki í gangi þar á bæ. Icelandair er eins og lággjalda flugfélögin nema þeir eru með hágjalda verðskrá.

En ég er samt fegin á meðan Icelandair lifir - en þessar breytingar eru ekki til að bæta standardinn hjá flugfélaginu - en kannski verður reksturinn betri fyrir vikið.


Fimm fræknir í Frankfurt!

frankfurt 003Við erum komin heim frá Frankfurt og höfðum það rosalega gott. Versluðum auðvitað sama og ekkert, allt svo dýrt fyrir okkur - þar sem evran er yfir 180 kr. Við keyptum evrur á 174 kr. stk áður en við fórum, en í dag er hún 187 kr. Maður er alltaf að græða! 

Þetta er í fimmta skiptið allavega sem við förum til Frankfurt. Erum vön að fara tvö saman hjónin en nú buðum við börnunum öllum með (sonurinn, dóttirin og bretinn).  Við höfum ekki verslað mikið af jólagjöfum úti en ég kaupi mér alltaf eitthvað af fötum. Nú vantar mér ekkert (af því að verðlagið er óhagstætt), en ég á föt sem dugar fyrir a.m.k. þrjár konur og skartgripi fyrir enn fleiri, en þær þyrftu að vera smá hippý eins og ég.  

En það er svo notalegt að vera á jólamarkaðnum í Frankfurt, þar eru allir glaðir, allir eru góðir við hvert annað og allir eru bara að njóta. Maður fær sér bara eplavín og horfir á fólkið. Myndin er af stóra jólatrénu á markaðnum í Frankfurt.frankfurt 002

Það var bara eitt - ég fékk mér að reykja Whistling Keypti einhverja koníaks-legna smávindla með filter og þetta reykti ég með eplavíninu. Þegar ég hætti fyrir ca 15 árum þá fékk ég mér alltaf vindil við "hátíðleg" tækifæri. Þetta gerði ég í mörg ár - en alltíeinu fannst mér svo óhollt að fá mér vindil (þeir eru sterkari en sígó) svo ég fékk mér sígarettur og reykti bara meira og skítféll. Núna ætla ég ekki að falla í sama pittinn Wink fæ mér bara vindil við "hátíðleg" og ekki orð um það meir.

Mér hefur t.d. ekki langað að reykja síðan ég kom heim í gær Smile.

Set inn fleiri myndir seinna! Neðri myndin er af Hjördísi, Craig, Ívari og Gumma með Starbucks kaffi og kökur. Bara yndislegt.


ég má ekki missa af jólamarkaðinum

Á hverju ári förum við (ég og sá fimmtugi) til Frankfurt á jólamarkaðinn og líka til að vera hönd í hönd tvö saman (K.K. ferð). Á síðasta ári ákváðum við að taka börnin og bretann með okkur, vissum þá auðvitað ekki að Evran yrði 166 kr. en evran var 85 - 90 kr þegar þessi ákvörðun var tekin.

En við ætlum að fara og njóta þess bara. Það er svo gaman þegar við erum öll fimm saman - eitthvað svo notalegt. Dóttirin og bretinn hafa ekki komið til Frankfurt og ekki til Heidelberg sem er svo æðislegur staður. Maður fer bara með lest frá Frankfurt til Heidelberg - ó mæ god - þið ættuð að sjá jólamarkaðinn þar.

Þjóðverjar eru svo góðir heim að sækja - gera allt fyrir mann (allavega fyrir okkur) og jólastemningin er engu lík, maður getur ekki lýst því.

Þetta verður jólagjöfin okkar allra - við notum Robin Hood aðferðina - þeir sem eiga meiri pening, þeir borga.


Fórum Krísuvíkurleiðina í Bónus..

...í þessu fína veðri. Við Strandakirkju í Selvogi hittum við fullt af selum, sem lágu í sólbaði en einn synti í áttina til okkar - að drepast úr forvitni eins og við. Þar var líka fugl sem ég hef aldrei séð áður og veit ekki hvað hann heitir. Setti inn mynd af honum ásamt selum, feðgunum og mér. Eftir Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfoss hring enduðum við í Bónus í Hveragerði.

Ef einhver veit hvað dökki fuglinn heitir þá væri gott að fá að vita það. Er þetta langvía?

fuglar v/Selvog


Það er kominn 9. mars.....

.....og við erum ekki búin að ákveða hvert við förum í sumarfrí. Við förum alltaf eitthvað til útlanda á sumrin, eitthvert í sól og gott veður og höfum ekki verið í vandræðum að velja okkur staði. Nennum ekki að fara á Íslendingahótel, finnst skemmtilegast að vera þar sem allra þjóða kvikindi eru. Þá kynnist maður fólki frá öðrum þjóðum og fólkinu í landinu.

Þarf að leggjast á netið og skoða. Ef einhver er með hugmynd þá er hún vel þegin.


Það er komið nýtt "flakkarablogg"

Það er svo gaman að lesa "flakkarabloggið", hún lendir alltaf í einhverju skemmtilegu og skrifar skemmtilega um það. Nú er hún á Filippseyjum, að bræða af sér Kína-kuldann.

Ég er svo stolt af henni, hún er svo hugrökk og dugleg. Stundar "skóla lífsins" og flakkar út um allann heim. Tungumál eru einhvernvegin innbyggð í hana (útskrifaðist sem stúdent með 7 tungumál fyrir utan íslensku). Við foreldrarnir styðjum hana heilshugar í þessum ferðalögum, höfum líka notið góðs af þekkingu hennar þegar hún fór með okkur um Suður Ameríku f. 2 árum. Þá komst ég að því að með tungumálakunnáttunni og sjarmanum nær hún til fólksins, sýgur í sig menningu þeirra og lærir af þeim. Fer ekki hefðbundnar túrista-leiðir, fer sínar leiðir. Hún er einstök stelpan, enda köllum við hana Yndisfríð, því hún er ekki bara falleg hún er líka yndisleg.

 


Flakkarinn lögð af stað...

Einu sinni á ári, í janúar, kveðjum við dótturina og horfum á eftir henni útí heim. Hún hefur þann háttin á að vinna á Íslandi í ca hálft ár og flakka um heiminn hinn helminginn af árinu. Nú er "flakkarinn"  sem sagt lögð af stað til Asíu. En núna er hún ekki ein, eins og hún hefur verið og er betra að vita af henni með breska hagfræðingnum. Hann er flakkari eins og hún og algjör perla. Hann hefur búið hjá okkur s.l. mánuði, lært íslensku og unnið.

Það verður bara gaman að fylgjast með þeim, hún er dugleg að láta vita af sér og segja frá því sem fyrir augu ber, á heimasíðunni sinni. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband