Færsluflokkur: Lífstíll

Sko, ég get sagt ykkur það.....

..... að ég var miklu heilsuhraustari á meðan ég reykti. Enn einu sinni er ég komin með hita, hor og alles. Búin að fá leið á þessu.

Á meðan ég reykti þá leið mér betur; líkamlega, andlega og félagslega. Ég finn engan mun á mér til hins betra eftir að ég hætti að reykja fyrir tæplega 3 mánuðum. Aðrir í kringum mig finna kannski þann mun að það er ekki reykingalykt af mér.

Ég finn kannski einhvern mun á mér eftir ár - eða hvað? Hafið þið heyrt þetta: "Ég er miklu hressari eftir að ég hætti að reykja - allt annað líf". En hvað þarf maður að vera hættur lengi?

Er óheyrilega óþolinmóð - ég veit það - en ég hef samt ekki á planinu að byrja aftur - ætla að halda þetta út - allavega í dag og á morgun Smile


Það er til létt leið til að hætta að reykja!

Hún er allavega létt ennþá - eftir 16 daga. Mig langar ekki í smók frekar en ég veit ekki hvað - búin að græða hellings pening og 2 kíló. Hvað ætli ég kosti per kíló? Þarf að passa mig að þyngjast ekki og þyngjast - hlýt að geta það.

Létta leiðin til að hætta að reykja er að lesa bókina, sem ber þetta nafn. Hún er snilld.

Það er eitt sem ég er ekki alveg nógu ánægð með og það er ég nenni ekki í líkamsrækt! Keypti kort í Hress og hélt að þar væri sama stemningin og var á árum áður. En það er nú aldeilis ekki.  Það er ekki gaman í vinnunni hjá starfsfólkinu og gæinn sem kenndi mér á tækin hafði ekki mikinn áhuga - þið munið hann kallaði mig Sigríði og vildi 15oo kr. fyrir kennsluna. Kannski er ekkert gaman þarna af því ég er alein, ekki með neinum - allavega þarf ég að taka mig á og drífa mig bara. Ég er með leikfimistöskuna í bílnum ef ske kynni að ég færi.

Á meðan er þessi Sigríður að gera æfingarnar sem gæinn setti niður á blað og merkti henni.


Ég hélt að ég yrði svo dugleg........

....þegar ég hætti að reykja, fengi fullt af tíma sem áður fór í reykingar. Þennan tíma ætlaði ég að nota í að laga til í húsinu og hanga á blogginu. Ég hef bara ekkert verið dugleg hvorki í tiltekt né á blogginu. En ég er enn reyklaus og þetta er bara ekkert mál. þetta er eiginlega grunsamlega auðvelt. Nota ekki nikótín-tyggjó eða plástur, drekk bara vatn. Er ekki erfið í skapinu - kem feðgunum á óvart og kannski mest sjálfri mér. Ég er sem sagt miklu meiri töffari en ég hélt ég væri.

 


Ég geri ekki svona magaæfingar - þær eru leiðinlegar!

Gæinn sem var að kenna mér á tækin í Hress horfði á mig eins og ég væri skrítin þegar ég sagði honum þetta. Ég geri í alvörunni ekki æfingar sem mér finnst leiðinlegar - o.k. hann hafði aðrar leiðir fyrir mig, eitthvað tæki sem reynir á magannfrá öllum hliðum. Blessaður drengurinn sem átti að kenna mér á tækin, gera eitthvað plan fyrir mig allt fyrir 15oo kr. Hann hafði engan sérstakan áhuga á þessu, gerði bara eitthvað, kallaði mig Sigríði (sagði honum hundrað sinnum að ég héti Sigrún) og spurði hvort ég væri komin til að létta mig. Varð smá móðguð því ég hélt að ég væri í kjörþyngd. Þegar hann rétti mér svo blaðið með æfingunum þá stóð SIGRíÐUR. Aumingja þessi Sigríður sem þarf að gera þessar æfingar. Ég geri bara það sem mér finnst skemmtilegt.

Annars gengur mér bara vel, reyklaus - dagur 3 og feðgarnir ennþá á lífi.


Það er stór dagur í dag

Í dag er ég hætt að reykja

og líkama og sál að veikja

Það er mikil líkn

að vera laus við þessa fíkn

og þurf‘ekki  í rettu að kveikja

 

Á einu almanaksári

laus úr nikótínfári

er það einföld stærðfræði

ég 200 þúsund græði

já bara á einu ári

 

Ég verð ekki brjáluð í skapi

né köfnuð í spiki og skvapi

því „bókin“ mig fræddi

heilaþvott græddi

að verða ekki fíkniefna-api

 

Ég bið ykkur bloggheimur góður

sem er um svo margt fróður

að gefa mér ráð

í góðan jarðveg verður sáð

þar sem ekki vex nikótíngróður.

 


Mín er að byrja í líkamsrækt!

Hingað til hef ég bara stundað geðrækt með líkamsræktarívafi - sem sagt kvöldgöngurnar mínar. Núna skal hefja alvöru líkamsrækt í alvöru líkamsræktarstöð. Búin að kaupa kort í Hress og alvöru líkamsræktarskó. En nú vantar allt hitt outfittið. Vil helst ekki verða skemmtiatriði svona fyrsta daginn. Mér finnst að vísu gaman að hafa brosandi fólk í kringum mig.

Fór í skápinn og leitaði - mátaði - rótaði og fann svo þessar fínu buxur, sem ég held að passi bara. Ég á milljón þrönga boli sem ég get verið í.

Á mánudaginn verður svo tekið á því.


Það var ég sem pantaði rigningu....

Það er allt orðið svo þurrt, það bráðvantaði almennilega rigningu. Ég er búin að vera skítug upp að olbogum í beðunum mínum, liggjandi á fjórum fótum að plokka arfa (hlýt að fá kúlurass). Þetta "fíla ég í botn".  Í vor setti ég hrossatað í beðin, svo allur þessi arfi kemur ekki á óvart. Enda hvað er betra en að liggja í kyrrðinni hér á norðurnesinu (á Álftanesi) og plokka upp arfa - ég bara spyr. Get ekki hugsað mér að setja eitur í jarðveginn, eitur sem drepur kannski ormana mína og margfætlurnar. Ligg bara á fjórum og fæ kúlurass í verðlaun.  Þegar ég verð gömul þá fæ ég mér garðyrkjumann með kúlurass til að vinna þessi verk fyrir mig - þá er eins gott að hafa góða sjón Cool.

Nú er bara að liggja í sófanum (ekki samt á fjórum) með góða bók, kókosbollu og njóta lífsins.

Góða helgi.

 

 


komumst ekki í svettið !

Við vinkonurnar komumst ekki í svettið í dag, það komast færri að en vilja - reynum síðar - ekki spurning. Maður verður að vita hvernig þetta er Smile. Í staðinn ætlum við bara að dúlla við hvor aðra, setja ektalit, strípur, djúpnæringu og svo videre. Borða góðan mat og kjafta frá okkur allt vit. Það er svo langt síðan við höfum gert þetta, en hér í den dúlluðum við svona við hvor aðra. Við þurfum sko ekki síður á þessari uppliftingu og litaskerpingu að halda núna - enda eldri.

Í gær var kórstjórinn minn, hún Erna fimmtug - þótt hún líti ekki út fyrir það. Við fórum 12 kórkonur og sungum fyrir hana í afmælisveislunni. Sungum afmælissönginn fjór-raddað fyrir utan hjá henni og nágrannar komu út til að athuga hvers lags væri. Allir veislugestir komu síðan út og við sungum úti í góðaveðrinu nokkur lög. Erna þurfti að vísu að ná í tónhvíslina sína til að gefa okkur þá tóna sem við báðum um. Ég held að hún hafi bara verið ánægð með okkur.

Í stjörnuspánni minni í gær stóð að ég ætti að skemmta fólki heimafyrir (var að lesa moggann frá í gær). Það hafa einhverjir lesið þetta því það var gestagangur hjá mér í gær, ég var alltaf að reyna taka fram tuskuna til að þrífa áður en kórkonurnar kæmu til mín að æfa sönginn. Á endanum var bara svona semi fínt hjá mér, vona að enginn hafi horft í hornin. Ég er heldur ekki týpan sem er með allt sleikt út úr dyrum, feðgarnir sem ég bý með hafa heldur ekki smekk fyrir því - það sést á umgengninni.  


Er einhver sem getur sagt mér ...........

frá þessu "svett" dæmi í indjánatjaldinu í Elliðárdalnum. Það er verið að reyna að fá mig í þetta og ég veit varla hvað þetta er - nema að ég svitna eitthvað rosalega. Svo hef ég heyrt að mennirnir sem eru með þetta eldi góðan mat og séu æðislegir. Þessi meðferð kostar 5000 kall og er 7 klst program. Meira veit ég ekki. Reyndi að "googla" þetta en það kom lítið út úr því.

Ef einhver hefur reynslu af þessu - má hinn sami segja mér frá. Takk


Byrjaði í dag á hreinsi-kúr.....

....en gafst upp á miðjum degi. Ég var nærri dáin úr hungri og verð því að vera óhreinsuð. Aldeilis ætlaði ég að taka á því - fá auka orku og ég veit ekki hvað og hvað. Kommon, það eru bara þrjár máltíðir í þessum kúr ( ég borða x6-7 á dag) en mig langaði samt að prófa, var búin að undirbúa mig þvílíkt í huganum - en sorrý þetta tókst ekki.

Svo er ég litandi á mér hárið eins og mér sé borgað fyrir það. Að upplagi er ég ljóshærð en fyrir nokkrum árum fór ég að lita á mér hárið rauðbrúnt sem klæðir mig bara vel. Seint í haust litaði ég mig aftur ljóshærða en fannst ég allt í einu orðin too much ljóska. Í gær setti ég í mig einhvern milli-lit og hárið varð eins og dautt dúkkuhár á litinn. Keypti gamla rauðbrúna og setti hann í mig í dag. Á kassa af ljósum lit ef mig langar að verða ljóshærð eftir helgi. Veit ekkert hvað ég vil; ljós vs jörp. Feðgunum finnst ég alltaf jafn falleg, sama hvernig hárið er á litinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband