Færsluflokkur: Lífstíll

Falleg tónlist getur algjörlega bjargað manni.........

................... þegar maður er að fara á límingunum.

Það er að komast mynd á eldhúsið mitt - þetta er allt að koma - en ég er að fara á límingunum, finnst þetta ekki ganga nógu hratt fyrir sig - kannast einhver við svona bráðlæti ??

En það verður allt nýtt í eldhúsinu nema ísskápurinn og ég Wink. Jú gamla leirtauið verður líka í nýju innréttingunni. Það hefur ýmislegt farið til Frú Sorpu - ótrúlegt en satt - ég hef hent helling - enda les ég bókina "Burt með draslið" aftur á bak og áfram.

Svo er ég búin að velja mér ofn og uppþvottavél. Aldrei í lífinu hef ég haft uppþvottavél svo ég þekki ekki þægindin og ofninn minn er ca 50 ára gamall Siemens - ekki með blæstri - svo núna verður "ungfrú Álftanes" bæði með uppþvottavél og blástursofn - vona bara að hún kunni að meta þessi "þægindi".

Móttettukórinn (jóladiskurinn) er bara settur á og haldið áfram að raða í skápana. Unglingurinn á heimilinu hefur sko skoðun á því hvernig er raðað í fínu stóru skúffurnar. Uppgötvaði það að hann er oftast látinn leggja á borðið - því hann vill hafa hnífapör, glös og diska í röð - bara frábært.

Njótið dagsins Heart eins og ég ætla að gera Kissing

 


STEINGEITIN stjörnuspá dagsins..............

.................... Þú ert upp á þitt besta og getur nánast samið um hvað sem er því þú færð fólk svo auðveldlega á þitt band. Taktu þér tíma til þess að sinna sjálfum þér og byggja þig upp.

Seinni setningin á mjög vel við - þarf einmitt að gefa mér tíma í að sinna sjálfum mér.

Þetta kemur frá Mogganum - og ekki lýgur Mogginn Heart


er búin að njóta hverra einustu hitaeiningu.......

................. sem ég hef látið oní mig um helgina. Þetta er cirka mánaðarskammtur - ekki minna.

Jólahlaðborðið á Loftleiðum á föstudagskvöldið var svo gott - fór örugglega átta ferðir og borðaði fyrir allan peninginn. Það er ótrúlegt hvað maður getur borðað - situr í nokkra klukkutíma borðar og talar og getur svo varla hneppt að sér kápunni þegar maður fer heim.

Hitaeiningarnar soguðust að mér og eltu mig alla helgina, neyddist til að kaupa sumar þeirra - þær voru svo aðgangsharðar.

Annars hefur helgin verið matur, söngur og gleði. Svo verð ég bara að ganga af mér hitaeiningarnar í vikunni - þ.e.a.s. ef ég nenni því Wink

Hafið það sem allra best kæru vinir (og hinir líka) og njótið aðventunnar Heart 


Jólamarkaður um helgina - jólagjafir í lange bane á hóflegu verði

........ í kvöld og á morgun verður Kvennakór Hafnarfjarðar með sölubás í Jólaþorpinu í Hafnarfirði. Margt sniðugt og flott verður til sölu t.d.

handverk úr þæfðri ull Pottaleppar, úr ísl. lopa - hannað af Sigrúnu Óskars, smákökur, kryddbrauð, pönnukökur, sultur og margt fleira.

Verði verður stillt í hóf.

Það er alltaf stemning að fara á jólamarkað, hitta fólk sem er í jólaskapi og kaupa "öðruvísi" jólagjafir.

Kvennakórinn syngur í Jólaþorpinu kl. 14:00 og eins og svo margir vita þá erum við bara góðar.

Vona svo að allir hafi það sem allra best yfir helginaHeart


Burt með draslið !!

Eitthvað kom fyrir á mínu heimili í gærkveldi - ég veit ekki hvað - en sá fimmtugi ruglaðist eitthvað í ríminu.

Þegar ég kom heim af raddæfingu í gærkveldi þá hafði sá fimmtugi staðið upp frá tölvunni Wink fengið unglinginn í lið með sér og ........................................

rifið gólfdúkinn af eldhúsgólfinu og skrúfað af veggnum einn eldhússkáp. Segist svo ætla að flísaleggja eldhúsið. Ég er ekkert óánægð með þetta - enda hafa flísarnar beðið nógu lengi inni í þvottahúsi.

En ég hafði mestar áhyggjur af því að einhverju hefði verið hent - einhverju sem ég er að safna og ætla einhverntíman að nota - kannski Blush. Tekið skal fram að þeir þorðu engu að henda, nema kexi sem var útrunnið 2008.  Svo hafði ég auðvitað áhyggjur af feðgunum, hvað kom eiginlega yfir þá ??? Sá fimmtugi sá stjörnhrap um daginn - ætli það hafi eitthvað að segja Errm

Núna er ég sem sagt að "taka til " í eldhússkápunum og losa þá - því það þarf að færa innréttinguna til að flísaleggja undir henni. Notaði tækifærið og byrjaði strax í gærkveldi að lesa bókina "Burt með draslið" og ætla að vera dugleg að henda - í alvörunni.

Fyrir konur eins og mig þá er þessi bók algjör biblía og verður að lesast reglulega. Annars væri ekkert pláss fyrir feðgana í húsinu fyrir dóti sem ég væri að sanka að mér og "geyma" og þá væri heldur ekkert flísalagt Grin

Þeir eru auðvitað frábærir þessir feðgar og ég elska þá báða út af lífinu InLove gerði það líka áður en framkvæmdir hófust Heart

Hafið það gott allir saman - ég ætla að halda áfram með næst bestu bók í heimi: Burt með draslið.


Prjónaði hjörtu ♥ á leiðinni út í Garð.......

......... en þar var "ættarmót". Frænka mín; bæjarstjórafrúin, á þar stórt hús og þar hittumst við afkomendur afa og ömmu. Amma mín, Elín Gunnarsdóttir hefði orðið 100 ára 12 nóv. Það er svo gaman að hitta allt þetta skemmtilega fólk, sem maður þekkir alltof lítið.

Svo ætlum við frænkurnar að hittast aftur - frænkuhittingur - er það ekki í tísku núna??

Unglingurinn minn (litla barnið, sem er orðið stærra en ég) keyrði suðureftir eins og herforingi, búin að vera með æfingarleyfið í viku og keyrir allt sem farið er. Hann er fínasti bílstjóri, kurteis og varkár.

Hjörtun sem ég er að prjóna, eru rauð lopahjörtu, sem Prjóna-Jóna kórsystir mín hannaði og er að finna á facebook síðunni hennar. Ég set þau í þvottavélina og þæfi þau - bara flott.

Annars er ég í þvílíku prjónastuði þessa dagana, með lopa í stöflum og hugmyndirnar flæða. Þyrfti að hætta að vinna til að geta framkvæmt allar þessar hugmyndir - bæði prjóna- og föndurhugmyndirnar.

Þegar ég kemst á "pensjón" þá verður nóg að gera - ég skirfa nefninlega niður þessar hugmyndir mínar svo ég gleymi þeim ekki.

knús á alla - konur og kalla Heart Kissing 


Prjónakaffi......

Skellti mér í prjónakaffi hjá Prjóna Jónu kórsystur minni. Fór "alein" - settist hjá konum sem ég þekkti ekkert, en í svona samkvæmi þá getur maður bara sest hjá hverjum sem er. Allir að prjóna - skoða hjá hinum og bara að spjalla.

Þarna lærði ég "nýtt prjónamunstur" eitthvað gamalt sem ég hef aldrei séð áður. Sá líka hvernig hægt er að sauma t.d. handföng á töskur með "girni" en ég var einmitt í vandræðum hvernig ég ætti að sauma/festa handfangið á þæfðu töskuna sem ég gerði um daginn. 

Við hliðina á mér sat kona sem á fullt af fallegum steinum eins og ég - og hún vinnur í búð sem selur m.a. lím fyrir steina og fleira og fleira. Gat sagt mér allt sem ég þurfti að vita. Bara gaman að hitta svona konur, svo eru konur svo skemmtilegar.  

Um daginn fór ég í prjónakaffi í Hafnarfirði og lærði "rússneskt hekl" sem er mjög sérstakt og flott.

Jólaskrautið hennar Prjónu Jónu er líka æðislegt - prjónað úr lopa og þæft - ég á pottþétt eftir að gera svoleiðis - frábært í gjafir, sérstaklega fyrir útlendinga.

Ég held áfram að mæta í prjónakaffi - maður er alltaf að læra eitthvað nýtt.

 


Gullna hliðið !

Gullna hliðið er á Álftanesi og er veitingahús - ef einhver skildi ekki vita það. Enginn Lykla-Pétur, bara Bogi. 

Þarna er held ég sá albesti matursem ég hef smakkað. Ég á bara ekki orð að lýsa þessum mat, fólk verður bara að fara og smakka. Þjónustan frábær og allt eitthvað svo krúttlegt, diskarnir og allt skrautið er svo flott en samt ekki " too much"

Nú verð ég allavega að fara í "Asian market" og kaupa engifer; einhvern engifer sem ég man ekki hvað heitir, vona bara að ég þekki nafnið þegar ég heyri það. Langar mest að bjóðast til að hjálpa kokkinum - kannski tvö kvöld og læra eitthvað af henni - þvílíkur lystakokkur.

Allavega fórum við saman rúmlega 20 af skurðstofunni og áttum saman frábært kvöld - enda bara skemmtilegt fólk sem vinnur á skurðstofu LSH.

Hafið það gott allesammen það sem eftir lifir helgar Heart Kissing


Bók-hveiti.....

.... allt er nú til - bókhveitinúðlur - smakkaði þær í kvöld - það var Nings í matinn. "Bókhveiti núðlur innihalda mikið að trefjum og góðum snefilefnum og vítamínum" segir á nings.is. Þar er líka sagt frá fleiri tegundum og nú vill ég smakka þær allar.

"Konnyaku núðlur er heilsusprengja frá Japan" segja meira að segja að þetta sé Guðs gjöf - ég legg nú ekki meira á ykkur í bili. Jú annars

"Green tea núðlur eru unnar úr bókhveiti sem hefur verið bætt með dufti úr grænu tei" og þakka t.d. Japanir græna teinu langlífi sitt.

Mín ætlar í "heilsubúð" eftir helgi að versla.

Þessi færsla er í boði Nings Wink

Annars var minn dagur mjög góður, fór út að ganga (klukkustundarganga) og hitti hestana á Grund, krumma í fjörunni, trukkabílstjóra fyrir aftan Sjávargötu og mann með hund. Þegar ég kom heim þá heilsaði hann mér hann Keli í næsta húsi - var samt ekki ánægður með mig og ég vona bara að lyktin af stóra hundinum sem ég heilsaði áður hafi verið orsökin. Sat svo undir svölunum í sólinni og prjónaði á meðan feðgarnir fóru með bílinn minn og settu vetrardekkin undir. þeir eru svo góðir við mig þessir feðgar enda hef ég alltaf verið þakklát fyrir þá.

Nonni uppáhaldsbróðir og Guðrún kona hans ásamt mömmu komu og borðuðu með okkur Nings - sem klikkar aldrei. Auðvitað var grænt te með - við ætlum öll að verða langlíf, eða þannig sko.

Njótum augnabliksins og verum góð við hvert annað  HeartKissing

 


að byggja upp eða að brjóta niður ....

Klukkan er eitt eftir hádegi þegar ég leggst uppí sófa og hugsa; ÓMG ég nenni engu - ætla aðeins að leggja mig. Þar sem ég ligg þá hvarflar hugurinn að þvottavélinni - skildi hún vera búin að þvo? Ætti kannski að hengja uppúr henni áður en ég legg mig?

Biddu nú við hugsa ég - ég hef nú eitthvað gert í morgun fyrst þvottavélin er í gangi. Fór yfir í huganum hvað ég hafði verið að gera um morguninn og það var bara slatti.

Eldaði mér hafragraut með rúsinum, prjónaði lopahúfuna fyrir Craig, sem ég var búin að fytja uppá, gekk frá endum og þvoði hana, þvoði klósettið á neðrihæðinni, tók handklæðin niður af snúrunni, braut saman og gekk frá þeim, þvoði eina stóra og hengdi upp og setti í aðra, tók eftir hvað útidyrahurðin var orðin grá - skellti tekkolíu á hana (þetta er tekkhurð) og fyrst ég var komin með olíuna þá skellti ég henni líka á borðið undir svölunum. Að lokum eldaði ég mér gurmé grænmetisrétt í hádeginu; grasker, gulrætur, zucchini og sveppi í niðursoðinni kókosmjólk og kryddi.  

Ég var sem sagt södd eftir hádegismatinn þegar ég lagðist uppí sófa, búin að öllu þessu - fyrir utan að horfa á Bold and the beautiful, lesa moggann, senda tölvupósta og lesa póstinn minn, fá mér kaffi og .... , borða mandarínu ......... 

Einu sinni var mér sagt að maður hefur val um tvennt:

að byggja upp - eða að brjóta niður

en einhvernvegin er ég meira í þessu seinna, þótt mig langi að vera í þessu fyrra.

En ég lagði mig í klukkutíma - og byggði mig upp !!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband